Hvað eru skráð náttúrulyf?

Hvað eru skráð náttúrulyf?

Ritstjóri No Comment

Sjúkdómar hafa fylgt manninum frá upphafi alda og hefur hann reitt sig á náttúruna til að lækna og líkna. Að minnsta kosti þriðjungur hefðbundinna lyfja sem eru á markaði eiga rætur sínar að rekja til náttúrunnar en slík efni eru hrein, efnafræðilega vel skilgreind efni sem eru almennt nýmynduð á rannsóknarstofum og í verksmiðjum.

Náttúrulyf innihalda eitt eða fleiri virk efni sem koma fyrir í náttúrunni og eru þau unnin beint úr plöntu, þá ýmist úr rót, laufum, berki, blómum, fræjum, ávöxtum eða heilum plöntum. Plönturæktunin er stöðluð og fer framleiðsla lyfjanna fram samkvæmt alþjóðlegum kröfum um lyfjagerð (GMP – Good Manufacturing Practices). Neytandinn getur því verið viss um að fá alltaf sama skammt af náttúrulyfinu.

Náttúrulyf eru seld án lyfseðils og eru ætluð til sjálfslækninga við vægum sjúkdómum og/eða sjúkdómseinkennum á borð við gigtverki, depurð, mígreni, fótapirring, meltingarfærakvilla, svefnleysi, þvagfærasýkingar og fleira. Í sumum tilfellum er ekki vitað með vissu hvaða innihaldsefni jurtarinnar er ábyrgt fyrir virkni lyfsins. Þar sem lyf getur innihaldið fleiri en eitt virkt efni er möguleiki á að um sé að ræða samverkandi áhrif nokkurra efna.

Skráðum náttúrulyfjum er skipt í tvo flokka eftir skráningarleiðum:

Náttúrulyf (e. well established use): Lyf sem hafa verið minnst 10 ár á markaði. Klínískar rannsóknir hafa verið gerðar á eiginleikum lyfjanna sem staðfesta ábendingu þeirra. Þessi lyf eru skráð á sama hátt og hefðbundin lyf í Evrópu, í gegnum evrópsk lyfjayfirvöld, en þau þurfa þó ekki eins ítarlegar umsóknir og hefðbundin lyf.

Jurtalyf (e. traditional use): Lyf sem hafa verið minnst 15 ár á markaði í Evrópu og yfir 30 ár samtals í heiminum. Ekki þarf að sækja um markaðsleyfi fyrir slík lyf þar sem vísað er í langa hefð fyrir notkun þeirra og nægir því að sækja um einfalda skráningu. Þau eru, líkt og náttúrulyf, skráð í gegnum evrópsk lyfjayfirvöld og fylgja því ströngum reglum um gæði.

Í evrópsku og bresku lyfjaskránum (pharmacopoeia) er þeim náttúrulyfjum lýst sem hafa staðfesta notkun. Sum lönd, eins og Þýskaland, hafa jafnvel gefið út sérstaka jurtalyfjaskrá. Vert er að benda á að í Bandaríkjunum er ekki sérstakt eftirlit með náttúrulyfjum (herbal medicines) og því eru áhrif þeirra og öryggi ekki kannað jafn ítarlega og gert er í Evrópu.

 

Heimildir:

Newman DJ and Cragg GM. 2012. Natural products as sources of new drugs over the 30 years from 1981 to 2010. Journal of Natural Products 75:3, 311-335.

Cragg GM and Newman DJ. 2013. Natural products: A continuing source of novel drug leads. Biochimica et Biophysica Acta 1830, 3670-3695.