Eru náttúruafurðir alltaf öruggar?

Eru náttúruafurðir alltaf öruggar?

Ritstjóri No Comment

Fólk ber almennt mikið traust til náttúrunnar og því er vert að velta fyrir sér hvort náttúruafurðir séu alltaf öruggar.

Náttúruefni eru að finna m.a. í lyfjum, náttúrulyfjum, fæðubótarefnum eða öðrum óskráðum náttúruvörum. Ef náttúruvara er skráð sem náttúrulyf hefur hún hlotið markaðsleyfi hjá Lyfjastofnun líkt og önnur lyf. Til að fá slíkt leyfi þarf hún að uppfylla ákveðin skilyrði um gæði, öryggi og virkni. Innihald náttúrulyfja er staðlað með tilliti til virkra efna sem tryggir að neytandinn fær alltaf réttan skammt af lyfinu. Aftur á móti gilda engar slíkar kröfur fyrir óskráðar náttúruvörur líkt og fæðubótarefni.

Þrátt fyrir að um náttúrulyf séu að ræða þá geta því fylgt aukaverkanir en þær eru þó almennt færri og vægari en hjá hefðbundnum lyfjum. Það er því mikilvægt að þau séu ávallt notuð í samræmi við uppgefinn styrk og skammt. Einnig geta náttúrulyf milliverkað við önnur lyf og því er ráðlagt að hafa samband við lækni eða lyfjafræðing áður en meðferð hefst ef einstaklingur tekur önnur lyf.

Það er gífurlegur fjöldi óskráðra náttúruvara á markaði og eru gæði þeirra mjög misjöfn. Fjölmargar rannsóknir á fæðubótarefnum úr náttúrunni hafa sýnt fram á að þau geta innihaldið vott af þungmálmum eins og kvikasilfri, kadmíum og arseniki auk skordýraeiturs. Einnig hafa fundist í þeim hefðbundin lyf eins og sterar, sykursýkislyf og bólgueyðandi lyf sem er blandað í fæðubótarefnin til að auka áhrif þeirra. Í mörgum tilfellum eru settar fram rangar fullyrðingar um virkni varanna. Dæmi er til um vöru sem innhélt musteristré (Ginkgo biloba) og var sögð lækna Alzheimerssjúkdóm. Einnig átti vara með gingseng að koma í veg fyrir sykursýki og jafnvel krabbamein. Fyrirtæki bera mikla ábyrgð gagnvart neytendum þegar kemur að því að fullyrða slíkt, sérstaklega ef ábendingar eru ekki samþykktar af þar til bærum yfirvöldum. Í slíkum tilfellum munu sjúklingar ekki fá þá meðferð sem þeir telja sig vera að fá.

Það er engin trygging fyrir því að vara virki eða að hún sé 100% örugg bara af því að hún er úr náttúrunni. Það er því mikilvægt að kynna sér vel hvernig vara á að virka við tilteknum ábendingum og hvort um er að ræða skráð náttúrulyf eða almenna náttúruvöru.

Förum ávallt með gát, tökum ekki óþarfa áhættu.