Saga náttúrulyfja

Saga náttúrulyfja

Ritstjóri No Comment

Náttúran spilar veigamikið hlutverk í sögu lyfjafræðinnar því það má segja að upphaf lyfjafræðinnar megi rekja til gróðurs jarðar. Plöntur framleiða mikið magn af efnum sér til varnar þar sem þær geta ekki flúið af hólmi þegar þær verða fyrir árás örvera, sveppa og annarra lífvera.

Fólk hefur leitað til planta sér til lækningar frá örófi alda og voru elstu skriflegar heimildir um náttúrulyf ritaðar á leirtöflur í Mesópótamíu um 2600 f.Kr. þar sem virkni um eitt þúsund jurta er lýst. Sumar af þessum jurtum eru enn í notkun og er Papaver somniferum eitt dæmi þess, en sú planta framleiðir efni á borð við morfín. Þegar menn fóru að rannsaka notkun þessara jurta tóku þeir eftir því að í mörgum tilfellum voru sömu jurtir notaðar í öllum heimshlutum við sömu kvillum, sem jók trú á mátt þeirra.

Fyrir um hundrað árum komu fyrstu hefðbundnu lyfin á markað. Í fyrstu voru um að ræða efni sem einangruð voru úr plöntum en síðar meir voru þau efnasmíðuð á stórum skala til lyfjagerðar. Síðan þá hafa slík lyf verið í stöðugri þróun en á sama tíma minnkaði notkun náttúrulyfja. Á síðustu árum hefur áhugi Vesturlandabúa á náttúrulyfjum og náttúruvörum aukist til muna. Einnig ber að geta þess að stór hluti fólks í heiminum hefur enn ekki aðgang að lyfjum og notar því öfl náttúrunnar til að stunda sjálfslækningar.

Nú gilda strangar reglur um skráningu á náttúrulyfjum í Evrópu þar sem gerðar eru kröfur um gæði, virkni og öryggi þessara lyfja. Á lista Lyfjastofnunar Evrópu eru yfir 180 forskriftir fyrir náttúru- og jurtalyf þar sem búið er að samþykkja yfir 150 þeirra. Hvað Ísland varðar þá er þó einungis eitt náttúrulyf skráð hér á landi.