Skráð lyf eða fæðubótarefni?

Skráð lyf eða fæðubótarefni?

Ritstjóri No Comment

Burnirót (Rhodiola rosea L.) er vel þekkt lækningajurt sem hefur lengi verið notuð víða um heim í margvíslegum læknisfræðilegum tilgangi. Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar á virkni rótarinnar, m.a. með tilliti til bólgueyðandi, sýkladrepandi og lifrarvernandi eiginleika. Undanfarin ár hafa rannsóknir beinst meira að áhrifum jurtarinnar á streitu og þreytu og hafa vörur sem innihalda burnirót verið afar vinsælar, ekki síst hjá íþróttafólki.

Burnirótin er aðallega fengin frá Altai fjöllum í suðurhluta Síberíu en erfitt hefur reynst að rækta jurtina auk þess sem það tekur um fimm ár að rækta hana áður en hægt er að nýta í jurtalyf. Með aukinni eftirspurn og erfiðleikum í uppskeru verður hráefnið dýrara og freisting framleiðenda verður mikil að blanda öðrum skyldum jurtum út í þær vörur sem eiga að innihalda eingöngu burnirót. Í ljósi þessara aðstæðna ákváðu breskir og þýskir vísindamenn að kanna hvort innihald náttúruvara sem eiga að innihalda burnirót væri samkvæmt innihaldslýsingu og þá hversu víðtækt vandamálið gæti verið.

Hægt er að kaupa tvenns konar tegundir vara með burnirót. Annars vegar fæðubótarefni sem ekki þurfa að sýna fram á neina gæðavottun eða innihaldspróf. Hins vegar er hægt að kaupa burnirót sem skráð jurtalyf þar sem framleiðendur þurfa leyfi lyfjayfirvalda eins og önnur lyf. Þá þarf að skila inn gögnum m.a. um gæðavottun, geymsluþol og öryggisþætti. Vísindamennirnir ákváðu að kanna báðar tegundir (fæðubótarefni og skráð lyf) og vita hvort marktækur munur væri á þeim. Rannsóknin fór fram í Bretlandi og fundu þeir 39 vörur sem auglýst var að innihéldu burnirót. Af þessum 39 vörum voru aðeins tvær sem voru skráðar sem lyf en hinar 37 vörurnar voru markaðssettar sem fæðubótarefni.

Vörurnar voru efnagreindar og í stuttu máli má segja að ekki sé allt sem sýnist. Í um fjórðungi af þeim vörum sem áttu að innihalda burnirót (Rhodiola rosea) fundust ekki efni sem mætti tengja við þetta tiltekna afbrigði burnirótar. Hins vegar fannst í einhverjum tilfellum önnur tegund (Rhodiola crenulata) sem hægt er að fá á ódýran máta í Kína (m.a. á Ali Express). Þetta bendir til þess að einhverjir framleiðendur leyfi sér að nota ódýra systurjurt sem rannsóknir hafa sýnt að hafi alls ekki sömu lyfjafræðilegu eiginleika og burnirót.

Í þeim vörum sem þó innihéldu virka efnið í burnirót (rosavin) var ekki öll sagan sögð. Í um 80% tilfella voru magn og gæði efnisins undir þeim viðmiðunarmörkum sem komu fram á merkingum þ.a. í langflestum tilfellum var fólk að kaupa köttinn í sekknum. Þessir annmarkar áttu hins vegar ekki við í þeim tveimur vörum sem voru skráð lyf. Í þeim vörum var rétt magn af virka efninu og gæði þess var samkvæmt þeim stöðlum sem settir hafa verið.

Það er ljóst að einhverjir framleiðendur fæðubótarefna sem eiga að innihalda burnirót reyna að stytta sér leiðina með því að kaupa ódýrara hráefni og/eða með því að setja minna af því en þeir gefa upp á pakkningum. Engar kröfur eru gerðar til framleiðenda fæðubótaefna um að gæðakerfi þeirra fylgi alþjóðlegum stöðlum og því er engin eftirfylgni hvort varan sé sú sem hún er sögð vera á pakkningum. Svipuð umræða hefur farið fram í Bandaríkjunum í kjölfar rannsóknar dómsmálaráðuneytis New York fylkis á fæðubótarefnum sem áttu að innihalda náttúruefni en efnagreiningar bentu til að virku efnin vantaði í einhverjum tilfellum.

Uppruni alls sem við látum ofan í okkur er ávallt mikilvægur en ekki síst þegar við tökum inn efni sem eiga að vinna á sjúkdómum eða hjálpa okkur að komast yfir tiltekna kvilla. Við hvetjum neytendur að vera á verði og kynna sér vel innihaldslýsingar og ekki síst undir hvaða formerkjum vara er sett á markað, þ.e. sem skráð lyf eða fæðubótarefni.

 

Heimild:

Booker et. al. (2016). The authenticity and quality of Rhodiola rosea products, Phytomedicine; 23(7), p. 754-762