Önnur náttúruefni

Mikilvægt er að gera greinarmun á náttúrulyfjum og öðrum náttúruvörum þar sem skilin þar á milli eru ekki alltaf augljós. Ólíkt óskráðum náttúruefnum þá gilda strangar körfur um framleiðsluferli og gæðaprófanir náttúrulyfja til þess að markaðsleyfi sé veitt. Einnig þarf að sýna fram á virkni þeirra og öryggi en slíkar kröfur eru ekki gerðar til óskráðra náttúruefna. Nánari upplýsingar um náttúruefni sem ekki flokkast til náttúrulyfja:

Óskráðar náttúruvörur, vítamín og fæðubótarefni

Óskráðar náttúruvörur eru vörur sem innihalda efni sem eru unnin á einfaldan hátt úr náttúrunni. Gífurlegur fjöldi af náttúruvörum eru á markaði og eru gæði þeirra misjöfn. Ekki eru gerðar kröfur til um að framleiðendur sýni fram á magn innihaldsefna varanna né virkni þeirra. Það sama gildir um vítamín og fæðubótarefni; lítið sem ekkert eftirlit er með vörunum sem settar eru á markað og þurfa framleiðendur ekki að sýna fram á virkni þeirra.

Smáskammtalyf

Smáskammtalyf eru lyf sem unnin eru úr efnaafurðum, efnum eða blöndum sem kölluð eru hómópatahráefni. Þau eru ennfremur nægilega þynnt til að þau séu örugglega skaðlaus og mega til dæmis ekki innihalda meira en 1/10.000 af stofntinktúru og ekki meira en 1/100 af minnsta skammti lyfs sem notað er í hefðbundnum lækningum. Hugmyndafræðin bak við smáskammtalyf er sú að lyfin eru gefin við einkennum sjúklings sem þau kalla fram í stærri skömmtum í heilbrigðum einstaklingi. Sem dæmi má nefna að smáskammtakaffi (Coffea tosta) er notað til að meðhöndla svefnleysi sem líkist svefnleysi sem kaffi í stórum skömmtum veldur.

Ofurfæði (e. superfoods)

Ekki er til opinber skilgreining á ofurfæði en það er yfirleitt notað yfir þá fæðu sem er mjög næringarrík og inniheldur stóra skammta af andoxunarefnum, fjölfenólum (e. polyphenols), vítamínum og steinefnum. Neysla þess er sögð geta minnkað hættu á langvarandi sjúkdómum og lengt líf fólks. Misjafnt er hversu mikið slíkar fæðutegundir eru rannsakaðar með tilliti til áhrifa á tiltekin vandamál eða fyrirbyggjandi áhrifa.