Musteristré

ginkgo

Musteristré

Saga notkunar

Musteristré (Ginkgo biloba) er elsta tré veraldar og sagt vera “lifandi steingervingur”. Ginkó-ættin hefur verið til í yfir 200 milljónir ára og óx áður fyrr um víða veröld (í Asíu, Evrópu og Ameríku). Það var talið að hún hefði dáið út með öðrum “fornsögulegum plöntum” en árið 1691 ferðaðist þýskur læknir (Englebert Kaempfer) til Kína og sá að gínkótréð var enn á lífi. Nú er Ginkgo biloba eina tegundin sem er eftir af gínkóættinni. Tréð er ótrúlega lífseigt. Í seinni heimstyrjöldinni óx gínkótré einungis 1,1 km frá þeim stað þar sem kjarnorkusprengjan lenti í Hiroshima. Hofið sem tréð óx við eyðilagðist en tréð lifði af og óx áfram án þess að ummyndast. Enn þann dag í dag stendur tréð uppi og laufgast á hverju ári.

Kínverjar hafa notað tréð til lækninga í fjöldamörg ár en þeir notuðu helst fræið/hnetuna. Þegar farið var að nota tréð til lækninga í hinum vestræna heimi var laufið nýtt. Hnetan var notuð sem hóstastillandi, við astma og blöðrubólgu. Laufin voru einnig notuð við astma og við hjartasjúkdómum. Nú eru þurrkuð lauf jurtarinnar notuð í lyfjagerð.

 

Viðurkennd notkuna. Bæting á minni og lífsgæðum vegna mildra elliglapa.
b. Við fótaóeirð og hand- og fótkulda vegna blóðrásartruflana.
Notkun lyfsins er háð því hvernig það er unnið úr plöntunni.
AukaverkanirMargar heimildir eru til um aukaverkanir gínkó, bæði úr klínískum rannsóknum svo og úr rannsóknum gerðum á markaðssettu lyfi. Flest bendir til að aukaverkanir af gínkó séu vægar þegar það er tekið í ráðlögðum skömmtum. Flestar tilkynntar aukaverkanir eru einkenni frá meltingarfærum, húð og miðtaugakerfi ásamt blæðingum.
Meðganga og brjóstagjöfLyfið ætti ekki að nota á meðgöngu eða við brjóstagjöf.
MilliverkanirLyfið getur aukið áhrif blóðþynnandi lyfja. Það er því ráðlagt að fylgjast vel með skammtastærð ef þessi lyf Lyfið getur aukið áhrif blóðþynnandi lyfja. Það er því ráðlagt að fylgjast vel með skammtastærð ef þessi lyf eru tekin samhliða. Einnig eru vísbendingar um að gínkó geti hamlað virkni próteina sem taka þátt í niðurbroti og dreifingu fjölda lyfja og því er ráðlagt að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing ef notuð eru önnur lyf.
VarúðarorðÞar sem gínkó getur valdið blæðingum er ráðlagt að hætta notkun þess 3-4 dögum fyrir aðgerð. Einstaklingur með flogaveiki ætti að ráðfæra sig við lækni áður en meðferð hefst.
OfskömmtunEngin skráð tilfelli.

 

Klínískar rannsóknir

Áhrif gínkó eru einna best rannsökuð af öllum náttúrulyfjum. Flestar rannsóknir hafa beinst að áhrifum gínkó á einkenni vegna skertrar heilastarfsemi af völdum blóðrásartruflanna í heila. Þetta eru einkenni eins og minnistap, einbeitingarskortur, skilningsleysi, svimi, þreyta, svefntruflanir, höfuðverkur, skapsveiflur, óeirð, eyrnasuð, kvíði, heyrnartap og rugl.

Þó nokkrar rannsóknir hafa athugað áhrif staðlaðs gínkóextrakts á heilastarfsemi sjúklinga með Alsheimerssjúkdóm og sjúklinga sem þjást af elliglöpum. Enn aðrar hafa kannað áhrif á heltiköst (e. intermittent claudication) sem stafa af blóðrásartruflunum. Nær allir rannsakendur hafa notað staðlaða gínkóextrakta í rannsóknir sínar.

Rannsóknir sýna að gínkó hefur jákvæð áhrif á einkenni elliglapa og Alzheimerssjúkdóms en frekari rannsókna er þörf. Áhrif gínkó á önnur einkenni hafa verið rannsökuð en niðurstöður þessara rannsókna eru oft ósamhjóða.

Heimildir:

Pharmaceutical Press Editorial Team. 2013. Herbal Medicines, 4th Edition. Pharmaceutical Press, London, UK

Lyfjaforskrift Evrópsku lyfjamálastofnunarinnar

Matsskýrsla Evrópsku lyfjamálastofnunarinnar

Date:03 Nov, 2015

Categories:Blóðrásarkvillar